Fréttir

Kór MH 50 ára

Í dag fagnar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð 50 ára afmæli. Kórinn kom fyrst saman á þessum degi 18. október 1967. Af þessu tilefni er boðið til fagnaðar í kvöld í hátíðarsal skólans kl. 20:00 þar sem kórfélagar, vinir og velunnarar kórsins eru boðnir velkomnir. Kórinn er landsþekktur og hafa mörg verk verið samin fyrir kórana tvo og stjórnandann, Þorgerði Ingólfsdóttur.

Góður árangur í forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema

Þann 3. október fór fram forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema. Nokkrir MH-ingar tóku þátt og sigraði Tómas Ingi Hrólfsson í keppni á neðra stigi og Heimir Páll Ragnarsson var í sjötta sæti. Á efra stigi varð Emil Fjóluson Thoroddsen í 19.-20. sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Hafragrautur fyrir nemendur MH

Frír hafragrautur er í boði fyrir nemendur MH þriðjudaga til föstudaga frá 9:00-9:15. Eru nemendur hvattir til að mæta í grautinn og hlaða sig orku fyrir verkefni dagsins.

Framhaldsskólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands miðvikudaginn 11. október

Miðvikudaginn 11. október býður Sinfóníuhljómsveit Íslands nemendum og starfsfólki MH á tónleika en yfirskrift dagskrárinnar er Hollywood/Reykjavík. Um tónleikana segir: „Á þessum tónleikum verður gægst í gullkistu kvikmyndatónlistar frá Hollywood. Þar er af nógu að taka: Ben-Húr, Brúin yfir ána Kwai, Gone with the Wind og Breakfast at Tiffany's, auk þess sem leikin verða stef úr myndunum Súperman og Stjörnustríð eftir hinn sívinsæla John Williams.“

Aðalfundur foreldraráðs MH

Við minnum á aðalfund Foreldraráðs MH, þriðjudaginn 10. október og hvetjum foreldra og forráðamenn til að mæta. Fundurinn verður haldinn í stofu 11 kl 20:00.

Lýðræðisvika NFMH

Næstkomandi fimmtudag fara fram Skuggakosningar í MH og er atburðinum ætlað að auka og hvetja ungt fólk til þátttöku í lýðræðisstarfi og nýta um leið kosningaréttinn í kosningum til Alþingis 28. október. Af því tilefni hefur NFMH boðið fulltrúum stjórnmálaflokka til stuttra umræðufunda í Miklagarði í hádegishléinu á mánudag og þriðjudag (9. og 10. október). Eru nemendur hvattir til þátttöku í lýðræðisvikunni.

Valvika í MH

Dagana 9.-13. október velja nemendur áfanga fyrir næstu önn. Samkvæmt hefðinni er framboð áfanga fjölbreytt en mikilvægt er að nemendur kynni sér vel undanfarareglur einstakra áfanga. Á forsíðu heimasíðu skólans er að finna nánari upplýsingar og leiðbeiningar undir Valvika haust 2017.

Ungir vísindamenn

Tveir MH-ingar tóku þátt í Evrópukeppni ungra vísindamanna sem haldin var í Tallin í Eistlandi.

Jöfnunarstyrkur skólaárið 2017-2018

Áttu rétt á jöfnunarstyrk? Nemendur sem stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu eiga rétt á jöfnunarstyrk sem LÍN afgreiðir. Nánari upplýsingar er að finna inn á www.lin.is. Væntanlegir umsækjendur geta sótt um á INNU eða í heimabankanum. Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2017-2018 er til og með 15. október næstkomandi.

Kynningarfundur fyrir foreldra / forráðamenn 21. september - Introductory evening for parents / guardians 21st of September

Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn verður haldinn fimmtudaginn 21. september kl. 19:30. Gestum gefst tækifæri til að kynnast starfsemi MH og hitta starfsfólk. Umsjónarkennarar munu funda með foreldrum / forráðamönnum og fara yfir starfið sem er framundan í vetur. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð mun flytja tónlist undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. ________________________________ Introductory evening for parents / guardians will be hosted 21. of September at 19:30. Even though the addresses in the first part of the evening are in Icelandic it is our belief that conversations with the IB administrator and parents of other IB students are of value both to you and our staff. Parents / Guardians will have the opportunity to meet teachers, administrators and staff and learn about MH and its services. The Hamrahlíð School Choir will sing under the direction of Þorgerður Ingólfsdóttir.