28.04.2018
Nú eru lokapróf að hefjast og gott að rifja upp hollráð náms- og starfsráðgjafa MH.
Nemendur eru hvattir til að mæta vel úthvíldir í próf, borða hollan og góðan morgunmat á prófdag og mæta tímanlega í próf.
Þegar próf er tekið geta eftirfarandi þættir skipt miklu máli.
Vertu jákvæð/ur.
Hlustaðu vel á fyrirmæli og leiðbeiningar kennara.
Lestu allar leiðbeiningar og spurningar vel.
Skrifaðu skýrt og greinilega.
Athugaðu vægi spurninga og svaraðu þeim léttu fyrst.
Dveldu ekki of lengi við spurningu sem þú getur ekki svarað strax, merktu hana greinilega og geymdu en ekki gleyma henni.
Einbeittu þér að prófinu sjálfu og notaðu tímann vel.
Leitaðu aðstoðar hjá kennara ef þú ert í vafa um einhver atriði eða ef þú ert í vandræðum.
Gættu þess að lenda ekki í tímaþröng.
Farðu vel yfir prófið.
24.04.2018
Veikindi á prófdegi verður að tilkynna í gegnum Innu, samdægurs fyrir kl.14. Vinsamlegast tilgreinið áfangann í athugasemd.
Smelltu á fyrirsögnina til að lesa meira.
18.04.2018
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heldur sína árlegu vorannartónleika á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl kl.14:00, í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Flutt verða kórverk eftir Atla Heimi Sveinsson, Jón Nordal, Hansruedi Willisegger og Hreiðar Inga. Einnig hljóma madrígalar eftir Orlando di Lasso og útsetningar á íslenskum þjóðlögum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Árna Harðarson, Jón Ásgeirsson og Róbert A. Ottósson. Stjórnandi kórsins er Hreiðar Ingi. Aðgangur er ókeypis. Veitingar verða til sölu að tónleikum loknum en ágóði af sölu þeirra rennur í ferðasjóð kórsins.
17.04.2018
Stöðupróf í norsku/sænsku verða haldin laugardaginn 5. maí. kl. 10:00. Próftakan kostar kr. 12.000-. Próftakar þurfa að millifæra prófgjaldið inn á 0323-26-106, kt. 4602693509, fyrir kl. 13:00 4. maí og mæta með kvittun millifærslu í próf. Þegar millifærsla á sér stað, þá vinsamlega tilgreinið í skýringu kennitölu próftaka. Skráning fer fram í gegnum viðburðir sem er að finna hægra megin á heimasíðu skólans. Óski próftaki eftir að þreyta próf í öðrum skóla en MH þá þarf viðkomandi að fá leyfi fyrir próftöku í eigin skóla.
05.04.2018
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sérúrræði í prófum í gegnum Innu.
03.04.2018
Alec Elías Sigurðarson náði glæsilegum árangri og sigraði annað árið í röð í Landskeppni í efnafræði og Tómas Ingi Hrólfsson varð í sjötta sæti.
Sigurvegarinn fær boð um að taka þátt í Norrænu efnafræðikeppninni sem haldin verður í Osló dagana 16.-19. júlí og í
50. Alþjóðlegu ólympíukeppninni í efnafræði sem haldin verður í Tékklandi og Slóvakíu dagana 19.-29. júlí.
Við óskum þeim Alec Elíasi og Tómasi Inga innilega til hamingju með árangurinn.
23.03.2018
Próftafla og umsóknir nemenda um breytingar.
Nemendur athugið. Próftafla ykkar er nú aðgengileg á Innu.
Nemendur mega sækja um að hliðra próftöflu sinni ef:
• Tvö próf eru á sama tíma
• Þrjú próf eru á sama degi
• Ef tvö löng próf, lengri en ein klukkustund hvort próf, eru á sama degi.
Ekki er leyft að breyta próftöflu vegna ferðalaga!
20.03.2018
Skráning á sumarönn er hafin og fer fram hjá námsráðgjöfum, áfangastjóra eða námstjórum. Endilega skráið ykkur sem fyrst svo við getum staðfest hvaða áfangar verða í boði. Sumarönn er einungis fyrir nemendur MH.
20.03.2018
GULA GENGIÐ sigraði í Beta deild í Forritunarkeppni framhaldsskólanna, sem er þyngra stig keppninnar, en liðið var skipað þeim Tristani Ferrua Edwardssyni úr MH og Bjarna Degi Thor Kárasyni úr MR. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.
19.03.2018
Laugardaginn 17. mars voru úrslit stærðfræðikeppninnar Pangeu haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð. 90 nemendur í 8. og 9. bekk víðsvegar af landinu tóku þátt eftir að hafa skarað fram úr hópi 2763 nemenda úr 67 skólum sem skráðir voru til leiks í ár. Eftir að úrslitakeppninni lauk skemmtu uppistandarinn Alice Bower, sönghópurinn Mr. Norrington og trommusveitin African Lole nemendum og aðstandendum þeirra. Frú Eliza Reid veitti svo stigahæstu nemendunum glæsileg verðlaun og fengu allir nemendur viðurkenningarskjöl fyrir árangurinn. Sigurvegarar keppninnar voru Þorkell Auðunsson í 9. bekk úr Hagaskóla og Ingi Hrannar-Pálmason í 8. bekk úr Brekkuskóla.
Pangea er alþjóðleg stærðfræðikeppni og aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga á stærðfræði hjá grunnskólanemum. Keppnin var fyrst haldin á Íslandi árið 2016 og er skipulag hennar í höndum sjálfboðaliða úr Félagi Horizon og raungreina- og verkfræðinemum. Hún er haldin með góðum stuðningi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og Reon. Verkefnið var einnig styrkt af Reykjavíkurborg, Landsvirkjun, Landsbankanum og Eflu verkfræðistofu.