Fréttir og tilkynningar

Jarðfræðikveðja frá MH-ingi

30.09.2025
Það er gaman þegar útskrifaðir MH-ingar gefa sér tíma til að segja okkur frá því sem þau eru að gera eftir að skólagöngu þeirra hjá okkur er lokið. Ein þeirra er Elma Katrín Örvarsdóttir sem útskrifaðist haustið 2022. Hún er núna á sínu þriðja ári í jarðfræði við Háskóla Íslands og gæti ekki verið meira sátt með námið sem hún valdi sér. Í sumar var henni boðið í vettvangsleiðangur til Mongólíu af Steffen Mischke, prófessor við jarðvísindadeild HÍ. Þetta reyndist einstakt tækifæri og algjör upplifun.

Nordplus junior - verkefni

26.09.2025
Nordplus junior: „Geomorphological formations – impact of the past, present and future in Nordic countries“ Menntaskólinn við Hamrahlíð tekur þátt í Nordplus Junior þróunarverkefni í samstarfi við framhaldsskóla í Finnlandi á tímabilinu haust 2025 til vors 2027. Verkefnið felur í sér nemendaskipti og samstarf þar sem áhersla er lögð á jarðfræði, landslagsmótun, loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun í norrænu samhengi. Verkefnið skiptist í fjórar vinnulotur þar sem nemendur og kennarar heimsækja hverjir aðra til skiptis. Í hverri lotu er sérstakt þema sem snýr að jarðfræðilegri þróun annars landsins, með áherslu á fortíð, nútíð og framtíð. Nemendur vinna í blönduðum hópum að þverfaglegum verkefnum þar sem tenging er við vísindi, samfélag og umhverfi. Markmið verkefnisins er að styrkja þekkingu, gagnrýna hugsun, þvermenningarlega samvinnu og vitund um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Með því að skoða hvernig eldgos, jöklar, hreyfing jarðskorpunnar og veðurfar hafa mótað (og munu móta) Norðurlöndin, öðlast nemendur dýpri skilning á því hvernig náttúran og samfélagið tengjast – í fortíð, nútíð og framtíð.

Opnum huga okkar og hjörtu í gegnum tungumál

26.09.2025
26. september ár hvert er evrópski tungumáladagurinn haldinn hátíðlegur. Í MH starfa 24 tungumálakennarar og 10 erlend tungumál eru kennd við skólann: enska, danska, þýska, spænska, franska, ítalska, japanska, kínverska, norska og sænska. Þema dagsins í ár er "opnum huga okkar og hjörtu í gegnum tungumál." Það er svo sannarlega það sem málanemendur MH eru að gera alla daga hjá okkur.

Börn og netmiðlar

22.09.2025
Það er mikið leitað til skólanna að leggja fyrir ýmsar kannanir og ein af þeim fór í loftið í dag í MH. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Fjölmiðlanefnd fara þess á leit að fá þátttöku nemenda í könnuninni Börn og netmiðlar. Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um netmiðlanotkun ungmenna. Niðurstöðurnar verða notaðar sem grunnur að frekari vinnu Fjölmiðlanefndar við upplýsinga- og forvarnaraðgerðir, en þátttaka sem flestra er afar mikilvæg. Nánari upplýsingar og hlekkur á könnun. Við hvetjum nemendur til að taka þátt.

Guðmundur Flóki Sigurjónsson vann gullverðlaun í taekwondo

22.09.2025
Einn af afreksíþróttanemendum skólans, taekwondokappinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson keppti á sterku bardagamóti í Póllandi nú um helgina og vann til gullverðlauna í sínum flokki. Við óskum gulldregnum innilega til hamingju og óskum honum um leið góðs gengis á þeim mótum sem fram undan eru!

Ferðamaður – Utazó – Voyager

18.09.2025
Matyas McDaniel, nemandi í MH, sýnir ljósmyndir sem teknar hafa verið á síðustu fjórum árum. Sýningin er í Borgarbókasafninu Spöng og stendur til og með 4. október.

Íþróttavika Evrópu - #Be Active

15.09.2025
Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Menntaskólinn við Hamrahlíð lætur ekki sitt eftir liggja og hvetur til hreyfingar nú sem endranær. Íþróttakennarar skólans hafa veg og vanda af dagskránni sem er fjölbreytt eins og sjá má hér að neðan. Íþróttavikan er ætluð öllum nemendum og starfsfólki og lögð er sérstök áhersla á að skapa hreyfigleði í daglegu lífi.

Fylgdu okkur á Instagram @menntaskolinn_hamrahlid