Framhaldsskólanemendur vilja láta gera kröfur til sín og þeir ráða við erfið og flókin verkefni, líkt og lestur bóka á borð við Sjálfstætt fólk, fái þeir stuðning til þess og öruggt umhverfi til að prófa sig áfram.
„Engum nemanda hef ég kennt, sem ég veit um, sem hefur ekki verið stoltur af sjálfum sér fyrir að fara yfir þennan þröskuld sem þessi bók er. Því að hún reynir á mann, ekki bara því að hún gerist í gamla daga og er skrifuð fyrir löngu, heldur því hún tæklar svo flóknar tilfinningar og erfið atvik sem hafa ekkert með tímann að gera, heldur það sem bókin fjallar um."
Þetta segir Halldóra Björt Ewen, íslenskukennari til meira en tveggja áratuga, en hún starfar í Menntaskólanum við Hamrahlíð, einum fjögurra framhaldsskóla á landinu þar sem Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er enn kennd sem hluti af skylduáfanga.
Nemendur ráða prýðilega við verkefnið
Í samtali við mbl.is bendir Halldóra á að bókin sé aðeins ein af fjölmörgum sem nemendur lesa í skólanum en nokkuð hefur verið rætt um Sjálfstætt fólk síðustu vikuna í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins þar sem fram kom að innan við þriðjungur framhaldsskólanema lesi nú skáldsögu eftir Laxness sem hluta af skylduáfanga í námi sínu.
Margir hafa viðrað þá skoðun að ef til vill sé sagan ekki vel til þess fallin að kenna nemendum, þeir tengi ekki lengur við efniviðinn, við séum komin löngu komin út úr dreifbýlinu og það að henda doðrantinum í hausinn á nemendum sé ekki til þess fallin að kveikja áhuga þeirra.
En eru nemendur hættir að ráða við Laxness?
„Ég upplifi það bara alls ekki. Auðvitað á fólk miserfitt með allan texta, en mín upplifun er sú að nemendur, með hjálp, aðstoð og umræðum, ráði prýðilega við verkefnið og langi til þess að klára það," segir Halldóra.
„Ekki með nokkra bók henda kennarar í mínum skóla þeim í hausinn á krökkunum og láta þá eiga sig með bækurnar. Mín reynsla er að með þeim aðferðum sem við beitum hér, með endalausum umræðum og hjálp með það sem er erfitt er, að þá opnast bara augu og viljinn er til staðar. Ég stend fastar á því en eigin fótum."
Viðfangsefnin ekki bundin við dreifbýlið
Hvað varðar rökin um að nemendur tengi ekki lengur við sjálfstætt fólk því hún gerist ekki í sambærilegu samfélagi og nú er við lýði segist Halldóra þau ekki standast skoðun. Ísland hafi til dæmis þegar löngu verið komið út úr dreifbýlinu þegar hún sjálf var unglingur.
„Það sem mér finnst með bækur eins og Sjálfstætt fólk er að hún tekur á svo mörgum raunverulegum viðfangsefnum sem eru sígild og þau tengjast ekkert dreifbýli eða þéttbýli," segir hún.
„Það er tekið á þrældómi, illri meðferð og misnotkun valds. Það hangir bara ekkert saman að mínu viti við dreifbýli eða þéttbýli. Mérfinnst það bara vera sígild viðfangsefni."
Gæti verið frá 21. öldinni
Í færslu sem Halldóra ritaði um málið á samfélagsmiðlum á dögunum vakti hún athygli á þessu og birti máli sínu til stuðnings eftirfarandi tilvitnun úr Sjálfstæðu fólki þar sem tilfinningum Ástu Sóllilju í kjölfar ofbeldis sem hún verður fyrir er lýst:
„Henni finnst hún allt í einu vera orðin svo óeðlilega breið, hún sem hafði alltaf verið svo óeðlilega mjó, henni er innanbrjósts ekki ósvipað fiski sem hefur verið skorinn upp og flattur, já með hníf, með beittum hníf, hún er öll aum, ofan frá og niður úr, við hverja hreyfingu kennir hana einhvers staðar til, og þó ekki eins og hún væri aðeins hreinlega skorin, heldur eins og hún væri einnig sundurslitin og marin, helst af öllu hefði hún viljað liggja grafkyrr, undir stórri sæng, án þess að nokkur truflaði hana, í marga daga, bara sofa, sofa, jafnvel deyja..." (Sjálfstætt fólk, 52. kafli)
„Skömm þolenda sem lýst er í framhaldinu er með þeim hætti að, að þegar ég fatta hana sjálf fyrst, þá hugsaði ég, vá, bíddu, þetta gæti nú bara verið frá 21. öldinni," segir Halldóra Björt.
Geta mátað sig við alls konar kenndir
Þá tekur hún fram að það séu ekki bara flókin og raunveruleg viðfangsefni sem geri Sjálfstætt fólk að vænlegum kosti til kennslu.
„Persónurnar eru flóknar, við skiljum þær en kunnum á sama tíma ekki vel við þær og það er flókið og það er þannig í lífinu líka. Lífið er drulluflókið," segir Halldóra og bætir við:
„Mér finnst hún geta opnað augu manns fyrir því og æft fólk og krakka í að máta alls konar kenndir og hugsanir og tilfinningar, gremju, ást og reiði, máta sig inn í þetta, prófað og séð að það er hægt að skilja manneskju þótt maður sé alfarið ósammála henni."
Alltaf einhverjir sem mæta ólesnir
Kennarar hafa gefið upp ástæður á borð við minnkandi orðaforða og að nemendur séu hættir að lesa heima fyrir því að þeir hafi tekið skáldsögur Laxness af leslistum. Spurð hvort að þetta sé þróun sem hún hafi orðið vör við segir Halldóra:
„Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá veit ég það ekki. Nú er ég búin að kenna í tuttugu og eitthvað ár. Það hafa alltaf einhverjir mætt ólesnir. Það mættu líka einhverjir ólesnir þegar ég var í menntaskóla.
Það mætir líka bara fullt af krökkum sem eru alltaf vel lesin og það er bara æði. Sumt skilja þau, sumt skilja þau ekki. Og þegar þau uppgötva það sem þau hafa ekki skilið, það er fegurðin."
Í þessu samhengi segir Halldóra Björt frá því að um helgina hafi gamlir nemendur „mætt öskrandi í einhver skilaboðahólf" hjá henni og spurt hvort það sé raunverulega verið að hætta að lesa Sjálfstætt fólk í skólum. „Og það er ekki fólk frá síðustu öld."
Nemendur vilja láta gera kröfur til sín
En hvernig blasir það þá við henni að skáldsögur Laxness á borð við Sjálfstætt fólk og önnur flókin bókmenntaverk virðast vera lesin í minnkandi mæli í framhaldsskólum landsins?
„Mér finnst þetta sorgleg uppgjöf af því að af minni reynslu, og ég meina það í alvörunni, vilja nemendur láta gera kröfur til sín. Þau vilja fást við flókin viðfangsefni og þau ráða við flókin viðfangsefni, fái þau stuðning og öruggt umhverfi til þess að prófa sig áfram. Ég þekki í alvörunni ekki þann nemanda sem vill þetta ekki," segir Halldóra Björt og bætir við:
„Auðvitað segja þau upphátt að þau vilji þetta ekki. Þau eru unglingar og eiga ekki að vera sammála fullorðnum. Þau eiga að vera á móti fullorðnum en svo vilja þau samt að maður komi fram við þau eins og fullorðna og láti þau gera eitthvað sem er erfitt, og sigurinn er sannur þegar takmarkinu er náð."
Að lokum segir Halldóra Björt það grafalvarlegt mál ef að við sem samfélag trúum ekki á ungt fólk.
„Það er ekkert sem segir mér annað en að það sé full ástæða til að treysta ungu fólki fyrir flóknum verkefnum inn í menntaskóla þar sem á að vera öruggt umhverfi til þess að vera að prófa sig og þroska hugmyndir sínar, komast að einhverju nýju um sjálfan sig og æfa sig bara fyrir lífið, að taka á móti alls konar hlutum."