Réttur einstaklinga og eftirlit

Einstaklingur á rétt á að fá vitneskju um allar skráðar persónuupplýsingar um sig sem skólinn býr yfir, bæði rafrænar og á pappírsformi, hvaðan þær koma og til hvers þær eru notaðar. Við afhendingu slíkra upplýsinga ber skólanum skylda til meta áður hvert skjal sem óskað er eftir, hvort þar geti verið upplýsingar sem einstaklingurinn á ekki rétt á, á grundvelli III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012, um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. 

Einstaklingur á rétt á að krefjast þess að rangar eða ófullkomnar skráningar verði leiðréttar. Hann getur einnig farið fram á að ónauðsynlegum upplýsingum um hann verði eytt nema skólanum beri skylda til að varðveita upplýsingarnar samkvæmt lögum eða eyðing upplýsinganna brjóti á einhvern hátt á rétti annarrar persónu. 

Þegar einstaklingur fer fram á að fá afhentar upplýsingar sem skráðar eru um hann og/eða að upplýsingum um hann verði breytt, skal beiðnin vera skrifleg og vera viðkomandi að kostnaðarlausu. Nota skal þar til gert eyðublað (tengill á eyðublað). Umsóknina skal senda á netfangið personuvernd@mh.is eða í pósti til persónuverndarfulltrúa MH, Hamrahlíð 10, 105 Reykjavík.

Leitast er við að bregðast við öllum beiðnum innan mánaðar frá viðtöku þeirra. Sé um að ræða umfangsmikla eða flókna beiðni mun skólinn upplýsa um mögulegar tafir á afgreiðslu og kappkosta að svara í síðasta lagi innan þriggja mánaða frá viðtöku beiðni.

Eftirlit
Ef einstaklingur hefur athugasemdir við vinnslu MH á persónuupplýsingum sínum getur hann sent erindi til Persónuverndar sem annast eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd, reglugerða og sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd úrskurðar um hvort brot hafi átt sér stað. Upplýsingar um Persónuvernd er að finna á vef stofnunarinnar, www.personuvernd.is.

Síðast uppfært: 19. janúar 2022