Öryggi upplýsinga

Menntaskólinn við Hamrahlíð leggur ríka áherslu á að ekki sé gengið lengra í vinnslu persónuupplýsinga en þörf krefur til að ná því markmiði sem stefnt er að með vinnslunni. Skólinn hefur yfirlit yfir vinnslu persónuupplýsinga með því að halda vinnsluskrá. Í henni koma m.a. fram hvaða upplýsingar skólinn vinnur með um nemendur. Áhersla er á að gæta öryggis persónuupplýsinga og annarra gagna með aðgangsstýringu þannig að eingöngu þeir sem þurfa persónuupplýsingarnar hafi aðgang að þeim. Á starfsfólki skóla hvílir þagnaskylda samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það þýðir að starfsmenn mega ekki fjalla um málefni einstakra nemenda í skólanum nema lög kveði á um annað.

Ef öryggisbrestur á sér stað við vinnslu persónuupplýsinga skal það tilkynnt til Persónuverndar eigi síður en 72 klukkustundum eftir að skólinn verður var við brestinn, nema að bresturinn verði ekki talinn leiða til áhættu fyrir réttindi og frelsi viðkomandi einstaklinga. Öryggisbrestur þýðir að „brestur verður á öryggi sem leiðir til óviljandi eða ólögmætrar eyðingar persónuupplýsinga eða að þær glatist, breytist, verði birtar eða aðgangur veittur að þeim í leyfisleysi“ eins og segir í lögum um persónuvernd.

Síðast uppfært: 19. janúar 2022