Jafnréttisáætlun Menntaskólans við Hamrahlíð

Inngangur

Stefna Menntaskólans við Hamrahlíð er að skapa öllu starfsfólki og nemendum umhverfi þar sem samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og fólki er ekki mismunað á grundvelli kynferðis, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, útlits, fötlunar, trúarbragða, skoðana eða annarra þátta.

Markmið jafnréttisáætlunarinnar er meðal annars að vinna að jafnrétti samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisáætlunin er tvíþætt en annarsvegar eru sett fram markmið áætlunarinnar og hins vegar aðgerðaráætlun sem tilgreinir hvernig vinna á að þessum markmiðum og hverjir bera ábyrgð á þeim aðgerðum. Jafnréttisáætlunin tekur gildi í maí 2016. Hún verður endurskoðuð að tveimur árum liðnum í maí 2018. Í lok annars hvers skólaárs birtir skólinn á vef sínum jafnréttisskýrslu með mati á þróun jafnréttismála og endurskoðaða jafnréttisáætlun. Jafnréttisnefnd og skólastjórnendur bera ábyrgð á birtingu jafnréttisskýrslu og jafnréttisáætlunar á heimasíðu skólans.

 Við ákvarðanatöku og stefnumótun skal ávallt gæta að jafnréttissjónarmiðum og athuga hvaða áhrif ákvörðunin hefur á mismunandi hópa eins og t.d. konur, karla og transfólk. Við stefnumótun og ákvarðanatöku verður að tryggja að ekki halli á ákveðinn hóp. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við ráðningar í störf. Stefna skal að því að í hópi starfsfólks á hverju sviði sé kynjahlutföll sem jöfnust. Einnig skal tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnunarstöðum og nefndum skólans. Konur og karlar skulu njóta sömu launakjara, hafa jafna möguleika á launuðum aukastörfum innan skólans og hafa sömu tækifæri til að afla sér aukinnar menntunar.

Allt starfsfólk og allir nemendur eiga rétt á því að komið sé fram við þau af virðingu og að þau sæti ekki kynferðislegri og/eða kynbundinni áreitni, né verði fyrir hatursorðræðu (móðgandi ummælum) til dæmis vegna kynferðis, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, útlits, fötlunar, trúarbragða, skoðana eða annarra þátta. Fordómar, kynbundið ofbeldi, kynbundin og/eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum. Unnið skal gegn hvers kyns neikvæðum staðalímyndum til dæmis um hlutverk og eðli kynja.

Jafnréttisnefnd og jafnréttisáætlun

Við skólann starfar jafnréttisnefnd, í henni sitja þrír fulltrúar kennara. Kjósa skal tvo fulltrúa kennara í nefndina í upphafi skólaárs, annað hvert ár en hitt árið einn fulltrúa. Í lok annars hvers skólaárs birtir jafnréttisnefnd jafnréttisskýrslu með mati á þróun jafnréttismála við skólann og endurskoðaða jafnréttisáætlun á vef skólans.

Launakjör

Starfsfólk óháð kyni skal njóta sömu launakjara og hafa jafna möguleika á launuðum aukastörfum innan skólans. Gæta skal þess að yfirvinna standi öllum kynjum jafnt til boða. Gæta skal að sem jöfnustum kynjahlutföllum í nefndum skólans. Ganga skal úr skugga um að sambærileg eða jafn verðmæt störf njóti sömu kjara. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun mega ekki fela í sér kynjamismunun.

Ráðningar

Jafnréttissjónarmið skulu höfð að leiðarljósi til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður við skólann. Hafa skal í huga að í hópi starfsfólks á hverju sviði sé fjöldi karla og kvenna sem jafnastur. Einnig skal tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnunarstöðum og nefndum stofnunarinnar. Gæta skal að jafnréttissjónarmiðum þegar ábyrgð er deilt niður á starfsfólk.

Endurmenntun

Starfsfólk óháð kyni skal njóta sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Gera skal konum jafnt sem körlum kleift að samræma fjölskyldu-og atvinnulíf, meðal annars með sveigjanlegum viðverutíma í skólanum. Starfsfólki af öllum kynjum skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum barna eða annarra fjölskyldumeðlima. Ekki skal líta á það sem mismunun að tekið sé tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.

Hatursorðræða og kynbundin áreitni/ofbeldi

Fordómar, kynbundið ofbeldi, kynbundin og/eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum. Stofnunin skal leita allra leiða til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir hatursorðræðu, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni. Allir sem taka þátt í skólasamfélaginu bera ábyrgð á að vinna gegn því að mismunun eigi sér stað svo og að gæta þess að skapa ekki með orðum eða gerðum fjandsamlegt andrúmsloft gegn ákveðnum einstaklingi eða hópi. Fræða skal starfsfólk og nemendur um fordóma, áreitni og ofbeldi. Ef kynbundið áreiti eða ofbeldi hefur átt sér stað skal unnið eftir áætlun skólans um viðbrögð við kynferðislegri áreitni. Eineltisáætlun skólans er aðgengileg á heimasíðu og varðandi meðferð þeirra mála er vísað í þá áætlun.

Menntun og skólastarf

Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Einnig skal tryggja að kennslu- og námsgögn og kennslan sjálf stuðli að öruggu og fordómalausu umhverfi fyrir alla hópa nemenda. Kennarar eiga til dæmis ekki að gera ráð fyrir því að allir nemendur séu gagnkynhneigðir eða sís-kynja þegar rætt er við bekkinn. Taka á tillit til fjölbreytileika samfélagsins í víðum skilningi í kennslu, m.a. í fyrirlestrum, vali á myndefni, dæmum, lesefni og verkefnum. Kennarar eiga að vera til fyrirmyndar um jafnréttissinnaða framkomu, til dæmis á að tryggja nemendum óháð kyni jöfn tækifæri til að tjá skoðanir sínar.

Skólinn skal reglulega halda námskeið fyrir kennara þar sem fjallað er um jafnrétti kynja og sérstaklega um jafnréttismiðaða kennslu. Nemendur skulu einnig hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa nemendur undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Starfsfólk skólans þarf að vera meðvitað í samskiptum við foreldra og gæta þess að útiloka ekki annað foreldrið á grundvelli kyns. Mikilvægt er að litið sé á alla forráðamenn sem jafngild í foreldrasamstarfinu.

Mikilvægt er að vinna gegn staðalímyndum um rótgróin hlutverk og eðli kvenna og karla. Vinna skal gegn fyrirframgefnum viðhorfum um náms- og starfsval út frá kyni og hvetja skal nemendur af öllum kynjum til að taka „örugga áhættu“ við að draga menningarbundin kynhlutverk í efa.

Jafnrétti í félagslífi nemenda

Mikilvægt er að nemendur af öllum kynjum (s.s. kvenkyns-, karlkyns-, og kynsegin einstaklingar) komi fram fyrir hönd skólans og að sem fjölbreyttastur hópur nemenda taki þátt í starfsemi nemendafélagsins og að öllum nemendum standi til boða að taka þátt. Stuðla skal að sem jöfnustu kynjahlutfalli í þátttöku í stjórnum og ráðum nemendafélagsins.

Eftirfylgni

Jafnréttisnefnd og skólastjórnendur fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt jafnréttisáætlun skólans. Annað hvert ár er staða aðgerða samkvæmt áætluninni metin og niðurstöður birtar á vef skólans. Niðurstöður eru einnig kynntar á kennarafundi ef ástæða þykir til.

Síðast uppfært: 25. október 2018