Sérnámsbraut skólans er fyrir nemendur sem notið hafa verulegrar sérkennslu í grunnskóla og þurfa einstaklingsmiðað nám. Nemendum er að miklu leyti kennt í sérdeild en þar sem því verður við komið sækja þeir nám á aðrar brautir í einstökum fögum. Mikið er lagt upp úr að brautin sé hluti af skólaheildinni.
MH er heilsueflandi skóli og því er lögð áhersla á kennslu í heilsutengdum lífsstíl. Einnig er lögð rækt við menningu og listir og nemendur fá að upplifa það sem efst er á baugi í menningarlífinu í samfélaginu hverju sinni.
Kennslan er byggð á námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling og er hún unnin út frá markmiðum aðalnámskrár framhaldsskóla, ásamt upplýsingum um þarfir nemenda og mati á stöðu þeirra í námi og þroska.
Kenndar eru 20 klukkustundir á viku þ.e. 30 kennslustundir. Nemendum býðst að stunda nám í fjögur ár og útskrifast þau með lokaskírteini um námsferil sinn frá sérnámsbraut.
Forsenda fyrir inntöku nemanda á brautina er að greining sérfræðinga fylgi umsókn.
Helstu námsþættir:
- bóklegar greinar: íslenska, bókmenntir, stærðfræði, enska, önnur tungumál
- verk- og listgreinar: hússtjórn, leiklist, myndlist
- heilsurækt: íþróttir, heilbrigðisgreinar
- upplýsingatækni: tölvunotkun, ritvinnsla, netþjálfun
- lífsleikni: félagsfærni, heilsuefling, samfélagsfræði
- starfsnám: unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun /Atvinnu með stuðningi