Námsbrautir

Nýnemar haust 2019: Nýnemar sem innritast haust 2019 á aðrar brautir en tónlistar- og listdansbraut taka 205 einingar til stúdentsprófs. Nemendur sem útskrifast jól 2019 útskrifast með að lágmarki 215 einingar á öllum brautum. Frá og með vori 2020 geta allir útskrifast með 205 einingar af öllum brautum nema tónlistar- og listdansbraut sem verða áfram 215 einingar.

Í Menntaskólanum við Hamrahlíð er boðið upp á breiða almenna menntun á sjö bóknámsbrautum til stúdentsprófs: félagsfræðabraut, málabraut, náttúrufræðibraut, opinni braut, tónlistarbraut, listdansbraut og IB braut. Sérnámsbraut er áttunda brautin. Nemendum býðst að stunda nám á henni í fjögur ár og útskrifast með lokaskírteini um námsferil sinn frá sérnámsbraut.

Til að ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum, nema IB braut, þarf nemandi að ljúka 215 námseiningum (breytist vor 2020 í 205 e.), þar af 6 einingum í líkamsrækt. Sérstök námskrá gildir um IB brautina, sjá nánari upplýsingar um hana hér og undir IB Studies.

Námið á hverri braut skiptist í: Grunn/kjarna (120 einingar) og sérgreinar og val (95 einingar (85 e. vor 2020)). Samtals 215 (205) einingar. Tónlistarbraut (er 215 e.) er í samtarfi við tónlistarskóla og  ljúka þarf framhaldsprófi í tónlist til þess að útskrifast af brautinni. Listdansbraut (er 215 e.) er í samstarfi við listdansskóla (Listdansskóla Íslands, Danslistarskóla JSB og Klassíska listdansskólann) og danshlutanum lýkur með lokaprófi frá þeim skólum.

Markmiðið með skipulagi brautanna er að styrkja einkenni hverrar brautar með kröfum um dýpt á afmörkuðum sviðum, samanber þrepamarkmið nýrrar námskrár. Þau gera ráð fyrir að á stúdentsprófsbrautum skuli að lágmarki 33% áfanga tilheyra öðru þrepi eða hærra og 17% skuli vera á þriðja þrepi. Um leið er stefnt að því að auka val og ábyrgð nemenda. Sveigjanleiki með tilliti til áhuga nemandans hefur verið aukinn og dýpt á afmörkuðum sviðum er betur tryggð en áður.

Brautirnar hafa allar breiða undirstöðu, þ.e. allir leggja stund á móðurmál, stærðfræði, þrjú erlend tungumál, sögu, raungreinar, samfélagsfræðigreinar, líkamsrækt og lífsleikni.

Ef nemandi hefur hug á að taka tvær brautir saman þarf hann að gera það í samráði við áfangastjóra. Til dæmis er ekki hægt að taka opna braut og aðra braut saman.

Nemendur þurfa að taka 3 áfanga í þriðja tungumáli á öllum brautum nema málabraut. Það tungumál sem getur verið þriðja tungumál þarf að vera kennt í MH. Þetta eru franska, þýska, ítalska og spænska.

Tenglar á lýsingu hverrar brautar eru í dálki hér til hægri.

Síðast uppfært: 21. október 2019