Rektor með dúx og semidúx skólans á brautskráningu 24. maí
Útskrifaðir voru 128 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sex námsbrautum. Flestir útskrifuðust af opinni braut eða 69 nemendur, 24 af náttúrufræðibraut, 6 af félagsfræðabraut, 3 af málabraut, 5 af listdansbraut og 21 nemandi af IB-braut. Alls voru 18 nemendur brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Gabríela Albertsdóttir, stúdent af náttúrufræðibraut, með 9,76 í meðaleinkunn. Gabríela hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í stærðfræði frá Íslenska stærðfræðafélaginu.
Semidúx var Ollie Birki Sánchez-Brunete sem útskrifaðist af opinni braut með áherslu á myndlist og sálfræði með 9,59 í meðaleinkunn. Ollie Birki hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku og myndlist.
Við skólann er starfræktur minningarsjóður um Sverri S. Einarsson, fyrrum rektor MH. Markmið sjóðsins er að veita viðurkenningu nýstúdent sem hefur á framúrskarandi hátt nýtt möguleika áfangakerfisins í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Að þessu sinni var Unu Ragnarsdóttur veitt viðurkenning úr sjóðnum en samhliða náminu var hún í liði skólans í Gettu betur, ræðuliði skólans, varaforseti nemendafélagsins og tók einnig þátt í starfsemi leikfélagsins. Á sinni síðustu önn var hún í sigurliði okkar MH-inga í Gettu betur og söng hlutverk Maríu í Söngvaseið.
Við athöfnina tók Bolli Héðinsson til máls fyrir hönd 50 ára stúdenta og fyrir hönd nýstúdenta tóku til máls Jórunn Elenóra Haraldsdóttir og Valtýr Ferrell. Einnig fluttu nýstúdentar frumsamið lag og ljóð eftir Þór Ara Grétarsson nýstúdent, samið sérstaklega fyrir Kór Menntaskólans við Hamrahlíð.
Í kveðju rektors minnti hann brautskráða á að muna að hafa trú á sjálfum sér og horfa fram á veginn, vera jákvæð og trúa á að góðir hlutir gerist: „Við veljum ekki alltaf auðveldustu leiðina að settum markmiðum og verum viðbúin því að þurfa að færa fórnir til að nálgast markmiðin og láta drauma okkar rætast. Leiðin getur verið grýtt og erfið viðureignar en er vel þess virði þegar upp er staðið.“
Athöfninni var svo slitið með samsöng undir forystu kórstjórans Hreiðars Inga Þorsteinssonar þar sem lagið Sumarkveðja eftir Inga T. Lárusson var flutt en meðleikari var Jökull Jónsson.