Hverjir fara til sálfræðings?

Undanfarin ár hefur töluverður fjöldi nemenda haft samband við sálfræðing skólans. Sumir hafa komið í einstaklingsviðtöl en aðrir mætt á námskeið eða fyrirlestra innan skólans. Ástæður fyrir því að nemendur hafa samband eru ólíkar en margir hafa verið að leita ráðgjafar vegna breytinga á andlegri líðan, kvíða, vanlíðan og streitu.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur upplifi breytingar á eigin líðan. Í því samhengi er mikilvægt að minna okkur á að það er eðlilegt að upplifa breytingar á því hvernig manni líður.

Þegar við upplifum nýjar tilfinningar eða sterkari tilfinningar en við erum vön getur okkur brugðið og sumir verða jafnvel svolítið óöruggir. Sumir eiga erfitt með að átta sig á því hvað veldur því að þeim líður eins og þeim líður og geta haft gagn af því að ræða aðstæður sínar við hlutlausan aðila. Það er nefnilega algengt að fólk eigi erfitt með að átta sig almennilega á því hvað veldur sterkum tilfinningum og hvernig hægt er að bregðast við slíkum tilfinningum á uppbyggilegan hátt.

Auðvitað eru margar leiðir sem hægt er að fara til að hafa uppbyggileg áhrif á eigin líðan. Margir byrja á því að ræða við vini sína eða fjölskyldu til að fá uppbyggileg viðbrögð og ráð. Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við sálfræðing þar sem tækifæri gefst til að ræða um persónulega hluti í trúnaði.

Sálfræðingur getur lagt mat á það með þér hvað sé líklegt til að valda þessum breytingum hjá þér. Hann getur bent þér á gagnlegar aðferðir sem þú getur notað til að skilja betur tilfinningar þínar og aðstæður og hvernig þú getur brugðist við með uppbyggilegum hætti.

Ef þú vilt fræðast nánar um það sem sálfræðingar gera þá má finna frekara lesefni hér á síðunni www.gedheilsa.is.

Hér er svo hægt að lesa sér til um góð ráð og góðar ábendingar varðandi geðheilsu og andlegan líðan.

Ef þú telur að þú þurfir á aðstoð sálfræðings að halda þá getur þú pantað tíma hjá sálfræðingi skólans, á heilsugæslustöðinni þinni eða hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi.

Gangi þér vel.

Síðast uppfært: 15. febrúar 2022