Nordplus junior: „Geomorphological formations – impact of the past, present and future in Nordic countries“
Menntaskólinn við Hamrahlíð tekur þátt í Nordplus Junior þróunarverkefni í samstarfi við framhaldsskóla í Finnlandi á tímabilinu haust 2025 til vors 2027. Verkefnið felur í sér nemendaskipti og samstarf þar sem áhersla er lögð á jarðfræði, landslagsmótun, loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun í norrænu samhengi.
Verkefnið skiptist í fjórar vinnulotur þar sem nemendur og kennarar heimsækja hverjir aðra til skiptis. Í hverri lotu er sérstakt þema sem snýr að jarðfræðilegri þróun annars landsins, með áherslu á fortíð, nútíð og framtíð. Nemendur vinna í blönduðum hópum að þverfaglegum verkefnum þar sem tenging er við vísindi, samfélag og umhverfi.
Markmið verkefnisins er að styrkja þekkingu, gagnrýna hugsun, þvermenningarlega samvinnu og vitund um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Með því að skoða hvernig eldgos, jöklar, hreyfing jarðskorpunnar og veðurfar hafa mótað (og munu móta) Norðurlöndin, öðlast nemendur dýpri skilning á því hvernig náttúran og samfélagið tengjast – í fortíð, nútíð og framtíð.
Jarðfræðikennararnir Auður Ingimarsdóttir og Harpa Sigmarsdóttir eru í forsvari fyrir verkefnið í MH.