Nemendur MH fá verðlaun frá Umferðarstofu

Nemendur skólans tóku við verðlaunum úr hendi forseta Íslands  í dag á Bessastöðum í hugmyndasamkeppni nemenda í framhaldsskólum um fræðslu- og áróðursefni varðandi umferðaröryggi fyrir jafnaldra þeirra. Úr frétt af mbl.is (sjá fréttina hér) Besta ljósmyndin: „Þetta er í raun glæpur“ Sindri Benediktsson, nemandi í MH, bar sigur úr býtum fyrir bestu ljósmyndina. Að mati Umferðarstofu ber ljósmynd Sindra góðri hugmynd og þekkingu á ljósmyndatækni gott vitni. Það er sérlega eftirtektarvert að Sindri undirstrikar í þessari mynd það viðhorf að áhættuhegðun í umferðinni sem leiðir til líkamstjóns eða dauða sé í raun glæpur. Þetta gerir höfundur með því að setja í götuna teikningu af fórnarlambi umferðarslyss líkt og lögregla gerir á vettvangi morðs. Önnur verðlaun í flokknum besta slagorðið hlaut Hjalti vigfússon en það hljómar svona: Ekki leggja líf þitt í hendur þess sem er kenndur. Besti skólinn: Menntaskólinn við Hamrahlíð. Varaforseti nemendafélags MH, Sverrir Páll Sverrisson, veitti viðurkenningunni um besta skólann viðtöku. Menntaskólinn við Hamrahlíð hlaut sérstaka viðurkenningu frá Reykjavíkurborg en að öðrum ólöstuðum þóttu nemendur skólans sýna sérlega mikinn áhuga á keppninni og frá nemendum MH komu fram mjög góðar og margar hugmyndir.