Hamrahlíðarkórinn á Myrkum músíkdögum

Myrkir músíkdagar hafa verið mikilvægasti vettvangurinn fyrir framsækna nútímatónlist á Íslandi allt frá stofnum hátíðarinnar árið 1980. Hamrahlíðarkórnum hefur verið falið að halda tónleika á hátíðinni 12 sinnum, í fyrsta skipti árið 1983. Tónleikar kórsins á Myrkum músíkdögum í ár verða á sunnudag, 29. janúar kl. 15 í Háteigskirkju. Kórinn frumflytur m.a. nýtt verk eftir Kolbein Bjarnason við ljóð Egils Skallagrímssonar og er tónverkið tileinkað kórnum. Á efnisskránni eru auk þess verk eftir þrjú önnur íslensk samtímatónskáld, Huga Guðmundsson, Gunnar Andreas Kristinsson, og Atla Heimi Sveinsson, auk verka eftir franska tónskáldið Olivier Messiaen. Þrír kórfélagar koma fram í sólóhlutverkum í verki Gunnars Andreasar Kristinssonar (fyrrum kórfélagi og MH stúdent) sem samið er við þýðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups á Sólarsöng heilags Frans af Assisi.

Grímur Helgason klarinettuleikari (fyrrum kórfélagi og MH stúdent) leikur einleik
með kórnum í tónverki Atla Heimis og flytur einnig einleiksverk eftir Messiaen.