Hamrahlíðarkórarnir og Sinfóníuhljómsveit Íslands

Á fimmtudagskvöldið kemur, þann 25. mars, taka Hamrahlíðarkórarnir þátt í flutningi á  Dafnis og Klói eftir Maurice Ravel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi hljómsveitarinnar verður Eva Ollikainen og kórunum stjórnar Þorgerður Ingólfsdóttir.En eins og segir á heimasíðu SÍ eru nærri þrjátíu ár síðan kór úr Menntaskólanum við Hamrahlíð tók þátt í fyrsta heildarflutningi á Dafnis og Klói á Íslandi, með SÍ undir stjórn Jean-Pierre Jacquillat.

Tónleikarnir gengu eins og í sögu, hljómsveit og kór var hrósað í hástert og samdóma álit manna að sjaldan hefði heyrst annað eins á tónleikum á Íslandi. Í kjölfarið var stofnaður kór eldri nemenda við MH, Hamrahlíðarkórinn, og síðan hefur hann borið hróður Íslands um allan heim. Það er sérstakt ánægjuefni að nú skuli hinn stórkostlegi ballett Ravels aftur heyrast í fullri lengd, með æskubjörtum hljómnum sem hefur verið aðalsmerki kóranna í Hamrahlíð allt frá upphafi. (Af heimasíðu SÍ ).