Hamrahlíðarkórarnir flytja lofsöngva og friðarbænir í Kristskirkju í Landakoti

Hamrahlíðarkórarnir halda tónleika í Kristskirkju í Landakoti miðvikudagskvöldið 23. nóv. kl. 20. Kórarnir flytja verk eftir íslensku tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson og Huga Guðmundsson en Hamrahlíðarkórinn vinnur um þessar mundir að geisladiski með verkum Huga. Auk þess flytur kórinn tónverkið ....which was the son of.... eftir Arvo Pärt en verkið er tileinkað Þorgerði Ingólfsdóttur. Þá eru á efnisskránni einnig verk eftir Gil Aldema, Olivier Messiaen og Alessandro Scarlatti. 60 kórfélagar skipa nú Hamrahlíðarkórinn og á tónleikunum í Landakoti syngur einnig Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í nokkrum verkum. Það verða því tæplega 130 ungmenni sem syngja á tónleikunum en þeir hefjast kl. 20. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.