Gulldrengurinn Guðmundur Flóki
Einn af afreksíþróttanemendum skólans, taekwondokappinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson, fór til Póllands nú um helgina á sterkt bardagamót – Polish Open. Keppendur voru um 1000 á mótinu öllu. Guðmundur Flóki var í 18 manna flokki, undir 80 kg senior, og taldist tíundi sterkasti keppandinn í flokknum út frá stigafjölda á heimslista, því sat hann hjá í fyrstu umferð. Guðmundur Flóki er 17 ára og ætti því að vera í unglingaflokki (junior), 15-17 ára, en byrjaði að keppa í fullorðinsflokki á þessu ári.
Í 16 manna úrslitum mætti hann silfurverðlaunahafa frá síðasta heimsmeistaramóti í junior flokki og sigraði örugglega í tveimur lotum. Næst mætti hann mjög sterkum úkraínskum keppanda sem er núna í 9. sæti heimslistans og sigraði 2-1 og komst þannig inn í undanúrslit. Þar mætti hann Azerbajan, sigraði og var þar með kominn í sjálfan úrslitabardagann.
Úrslitabardaginn var á móti króatískum keppanda, Oscar Kovacic, sem var skráður sem sterkasti keppandinn í flokknum og er í fimmta sæti heimslistans en Kovacic hafði líka unnið sinn flokk á HM junior á síðasta ári. Flóki vann fyrstu lotu en Króatinn kom til baka í annarri lotu og jafnaði metin. Úrslitabardagi og úrslitalota, hér koma sterkar taugar að góðum notum! Guðmundur Flóki sýndi hvað í honum býr og tryggði sér öruggan sigur í síðustu lotunni og gullið komið í hús.
Við óskum gulldrengnum innilega til hamingju og óskum honum um leið góðs gengis á þeim mótum sem fram undan eru!