Brautskráning stúdenta Menntaskólans við Hamrahlíð 21. desember

Brautskráðir voru 98 stúdentar frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af fimm námsbrautum, þar af tveir stúdentar sem luku námi af tveimur brautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 43 nemendur, 33 af náttúrufræðibraut, 13 af félagsfræðabraut,  8 af málabraut og 3 af listdansbraut.

Þrír nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Sóley Halldórsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut með 9,37 í meðaleinkunn. Sóley hlaut auk þess viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í líffræði.
Semidúx var Anna Magnúsdóttir Eirúnardóttir sem útskrifaðist af málabraut með 9,26 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í þýsku.

Aðrir sem hlutu viðurkenningar voru:
Kristín Helga Ágústsdóttir fyrir ágætan námsárangur og þriðju hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Baldvin Fannar Guðjónsson fyrir ágætan námsárangur í raungreinum og frönsku.
Dagbjartur Kristjánsson fyrir ágætan námsárangur í sálfræði.
Darri Freyr Þrastarson fyrir ágætan námsárangur í líffræði.
Hildur Bragadóttir fyrir ágætan námsárangur í jarðfræði.
Kristjana Karla Ottesen fyrir ágætan námsárangur í dönsku.
Magna Þórey Guðbrandsdóttir fyrir ágætan námsárangur í efnafræði.
Róbert Leó Þormar Jónsson fyrir ágætan námsárangur í stærðfræði frá Stærðfræðingafélagi Íslands.
Sölva Magdalena Ramsey fyrir ágætan námsárangur í ensku.

Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Kormákur Logi Bergsson og Sóley Halldórsdóttir. Auk þess flutti ávarp Brynhildur Björnsdóttir formaður Nemenda- og hollvinasambands MH.

Í kveðju rektors, Steins Jóhannssonar, til nýstúdenta minnti hann á mikilvægi menntunar. Menntunin getur verið verkfæri, verkfæri sem stúdentar nýta til góðra verka í þágu samfélagsins. Steinn minnti jafnframt á að niðurstaðan velti hins vegar á hverjum og einum hvernig hann/hún nýtir sín tækifæri til jákvæðra breytinga í samfélaginu.

Kór skólans var í stóru hlutverki undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar og flutti nokkur verk auk þess sem aðrir nemendur og nýstúdentar fluttu tónlist.