Pangeu stærðfræðikeppni í MH

Laugardaginn 17. mars voru úrslit stærðfræðikeppninnar Pangeu haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð. 90 nemendur í 8. og 9. bekk víðsvegar af landinu tóku þátt eftir að hafa skarað fram úr hópi 2763 nemenda úr 67 skólum sem skráðir voru til leiks í ár. Eftir að úrslitakeppninni lauk skemmtu uppistandarinn Alice Bower, sönghópurinn Mr. Norrington og trommusveitin African Lole nemendum og aðstandendum þeirra. Frú Eliza Reid veitti svo stigahæstu nemendunum glæsileg verðlaun og fengu allir nemendur viðurkenningarskjöl fyrir árangurinn. Sigurvegarar keppninnar voru Þorkell Auðunsson í 9. bekk úr Hagaskóla og Ingi Hrannar-Pálmason í 8. bekk úr Brekkuskóla.
Pangea er alþjóðleg stærðfræðikeppni og aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga á stærðfræði hjá grunnskólanemum. Keppnin var fyrst haldin á Íslandi árið 2016 og er skipulag hennar í höndum sjálfboðaliða úr Félagi Horizon og raungreina- og verkfræðinemum. Hún er haldin með góðum stuðningi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og Reon. Verkefnið var einnig styrkt af Reykjavíkurborg, Landsvirkjun, Landsbankanum og Eflu verkfræðistofu.