Gaman þegar 10 ára stúdentar heimsóttu skólann í maí 2019 og stilltu sér upp við listaverkið hjá Norðurkjallara.
Þann 13. mars s.l. var haldinn aðalfundur fulltrúaráðs Nemenda- og hollvinasamtaka Menntaskólans við Hamrahlíð (NHMH). Aðalfund skal halda á þriggja ára fresti og kjósa samtökunum fimm manna stjórn úr hópi fulltrúaráðs en það skipa fyrrverandi forsetar Nemendafélags MH eða staðgenglar þeirra. Félagsmenn NHMH eru aftur á móti allir útskrifaðir nemendur frá MH, starfsmenn skólans fyrrverandi og núverandi, sem og fyrrverandi nemendur, sem ekki luku stúdentsprófi en óska eftir því að verða teknir upp á félagaskrá.
Aðalfundurinn í þetta skiptið var prýðilega sóttur. Úr stjórn gengu þau Brynhildur Björnsdóttir fráfarandi formaður, Þórhildur Líndal og Kristinn Árni Lár Hróbjartsson. Á liðnu ári lést stjórnarmaðurinn Jakob S. Jónsson. Ný stjórn var kjörin og skipa hana Karl Axelsson (forseti 1980-´81) formaður, Páll Valsson (ritari 1978-´79), Hrund Hafsteinsdóttir (forseti 1982-´83), Karen María Magnúsdóttir (forseti 2011-´12) og Hrafnhildur Anna Hannesdóttir (forseti 2018-´19).
Á fundinum fóru fram líflegar umræður. Menn rifjuðu upp minningar frá menntaskólaárunum og ræddu vítt og breytt um það hlutverk sem NHMH getur gengt sem stuðningsaðili við starf MH á sem breiðustum grundvelli. Þá mætti Helga Jóhannsdóttir rektor á fundinn og fjallaði um það starf sem nú fer fram á vettvangi skólans.
Facebook síðu félagsins má finna hér: https://www.facebook.com/hollvinirMH