MH hlýtur jafnlaunavottun

Jafnlaunamerkið
Jafnlaunamerkið

Jafnlaunakerfi MH hefur hlotið vottun frá vottunarstofunni iCert og í kjölfarið hefur Jafnréttisstofa veitt MH heimild til að nota Jafnlaunamerkið. Þetta þýðir að jafnlaunakerfi MH uppfyllir kröfur stjórnunarstaðalsins ÍST 85:2012. Jafnlaunakerfi MH byggir á launa- og jafnlaunastefnu skólans. Markmið skólans er að starfsfólk óháð kyni njóti sömu launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Jafnlaunakerfi MH hefur verið í smíðum frá því snemma árs 2019 þegar stýrihópur um jafnlaunakerfi var skipaður. Í honum sitja Helga Jóhannsdóttir, konrektor og formaður hópsins, Signý Marta Böðvarsdóttir fjármálastjóri og Halldóra S. Sigurðardóttir skjalastjóri. Steinn Jóhannsson rektor fylgdist með starfi hópsins og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, var hópnum til aðstoðar og ráðgjafar.

Í skýrslu úttektarteymis iCert var sett fram eftirfarandi ályktun:

Það er niðurstaða úttektarteymis iCert að MH hafi útfært jafnlaunakerfi sem uppfyllir kröfur staðalsins ÍST 85:2012. Mikill metnaður og vilji er til staðar til þess að gera þessum málaflokki hátt undir höfði og auka skilvirkni jafnlaunakerfisins. Stýrihópur jafnlaunakerfis er mjög virkur, samstíga og nýtur mikils stuðnings og liðsinnis rektors MH. Innleiðing jafnlaunakerfisins hefur verið skilvirk og árangursrík að mati úttektarteymis.

Ljóst er að mikil vinna hefur farið í að þróa og innleiða kerfið. Næstu skref felast í því að vinna eftir því og iCert fylgir vottuninni eftir árlega með úttektum.

Hér má sjá vottunarskírteini MH frá iCert.