Fimm Græn skref í hús

Fimmta skrefið var stigið 8. desember 2023
Fimmta skrefið var stigið 8. desember 2023

MH fagnar því að nú hefur skólinn lokið öllum fimm Grænu skrefunum í samnefndu verkefni á vegum Umhverfisstofnunar. Fimmta skrefið felst í því að koma á fót umhverfisstjórnunarkerfi. Kerfið byggist m.a. á umhverfis- og loftslagsstefnu, markmiðssetningu, aðgerðaáætlun, fræðsluáætlun og ýmiss konar verklagsreglum. Verklagsreglurnar tryggja hlítingu laga, framkvæmd aðgerða, eftirfylgni, rýni og stöðugar umbætur á kerfinu.

Skólinn vinnur markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar. Tekist hefur að minnka magn úrgangs um tæp 50% frá árinu 2019 og endurvinnsluhlutfallið hefur hækkað ár frá ári. Helsta áskorunin er að minnka losun vegna flugs en árlega fara nemendur í námsferðir til útlanda, til dæmis í tengslum við tungumálanám. Skólinn hefur kolefnisjafnað alla losun frá árinu 2022.

Grænu skrefin hafa haft áhrif á margt í skólasamfélaginu. Meiri meðvitund er meðal starfsfólks og nemenda um mikilvægi þess að minnka sóun og hafa verið haldnir skiptimarkaðir þar sem alls kyns hlutir hafa skipt um eigendur. Nú í desember var skiptimarkaður á kennarastofunni þar sem púsl, bækur og ýmiss konar smádót fyrir jólasveinana var í aðalhlutverki. Mikil ánægja hefur ríkt um þetta framtak meðal þátttakenda.