Brautskráning MH haust 2017

Þann 21. desember var brautskráður 181 stúdent frá skólanum af sex námsbrautum. Þrír nemendur luku námi af tveimur brautum og flestir brautskráðust af opinni stúdentsbraut eða 70 stúdentar . Dúxar skólans að þessu sinni voru tveir, þ.e. Sigrún Rósa Hrólfsdóttir og Kári Steinn Aðalsteinsson sem voru með 9,50 í meðaleinkunn. Alls voru brautskráðir 9 nemendur með ágætiseinkunn, þ.e. yfir 9,0 í meðaleinkunn. Brautskráningarhópurinn að þessu sinni er sá fjölmennasti um jól í 51 árs sögu skólans. Á almanaksárinu 2017 útskrifaði skólinn alls 333 nemendur á 8 námsbrautum.
Fjöldi stúdenta með sérhæfingu í tónlist var að útskrifast að þessu sinni og spiluðu m.a. Klara Rosatti nýstúdent og Herdís Ágústa Linnet tónlist fyrir gesti áður en athöfnin hófst. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng á athöfninni undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar auk þess sem nýstúdentar í kórnum fluttu tónlist og Ingibjörg Ragnheiður Linnet nýstúdent lék á trompet.