Fréttir og tilkynningar

MH-ingar vilja lesa krefjandi bókmenntir

16.10.2025
Hildur Ýr Ísberg var í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem hún ræddi um bókmenntalestur unga fólksins okkar og hversu mörg elska að lesa þessar bókmenntir. Nemendur í MH hafa sjálfir óskað eftir að fá að lesa krefjandi bókmenntir og finnst að það eigi að láta þau takast á við erfiða hluti. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á netinu.

Lokun götunnar við Hamrahlíð

14.10.2025
Malbikstöðin vinnur að gatnaviðhaldi á Hamrahlíð, á morgun, miðvikudaginn, 15. október - EF veður leyfir. Framkvæmdir hefjast kl. 14:00 en áætlað er að þeim ljúki um kl. 17:00 en verkið er háð veðri og gæti því riðlast aðeins. Lokað verður fyrir umferð um framkvæmdarsvæðið eins og meðfylgjandi lokunarplan sýnir. Opnað verður fyrir umferð eins fljótt og hægt er. Malbikunarstöðin biðst velvirðingar á öllum truflunum sem þetta kann að valda.

Karatekonan Embla Halldórsdóttir með gull í Belgíu

10.10.2025
Embla Halldórsdóttir, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð og öflug karatekona, vann gullverðlaun á afar sterku alþjóðlegu móti í Liège í Belgíu um síðustu helgi. Frammistaða Emblu var einstaklega glæsileg og í kjölfar mótsins tók hún þátt í æfingum með finnska og ungverska landsliðinu. Við sendum Emblu innilegar hamingjuóskir með frábæran árangur!

Í faðmi rektora

10.10.2025
Skólameistarar framhaldsskólanna hittast reglulega og bera saman bækur sínar. Á eina slíka samveru mætti MH-ingurinn Vigdís Hafliðadóttir og söng og fór með gamanmál. Hún talaði fallega um skólann sinn og nefndi að hún hefði ekki getað hætt í MH þar sem hana langaði, að sem flestir kennarar skólans, fengju að kenna henni. Vigdís var forseti NFMH veturinn 2014 - 2015. Hún hefur gert ýmislegt síðan þá og meðal annars lokið prófi í heimspeki og hafið nám í pípulögnum. Spurningin hjá henni núna er sú, hvaða nafn fyrirtækið hennar eigi að bera, svo pípur og pælingar skíni í gegn.

Guðmundur Flóki með tvö gull í Riga

07.10.2025
MH-ingurinn og taekwondo-kappinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson heldur áfram að standa sig vel á erlendum stórmótum og vann nú tvö alþjóðleg mót um nýliðna helgi.

Samfélagslögreglan í heimsókn

05.10.2025
Í vikunni verður lögreglan á sveimi í MH og er ástæðan sú að hún er að heimsækja alla hópa í lífsleikni nýnema. Tilgangurinn er að kynna samfélagslögregluna og fyrir hvað hún stendur. Nánar má lesa um samfélagslögregluna á síðu lögreglunnar.

Jarðfræðikveðja frá MH-ingi

30.09.2025
Það er gaman þegar útskrifaðir MH-ingar gefa sér tíma til að segja okkur frá því sem þau eru að gera eftir að skólagöngu þeirra hjá okkur er lokið. Ein þeirra er Elma Katrín Örvarsdóttir sem útskrifaðist haustið 2022. Hún er núna á sínu þriðja ári í jarðfræði við Háskóla Íslands og gæti ekki verið meira sátt með námið sem hún valdi sér. Í sumar var henni boðið í vettvangsleiðangur til Mongólíu af Steffen Mischke, prófessor við jarðvísindadeild HÍ. Þetta reyndist einstakt tækifæri og algjör upplifun.

Fylgdu okkur á Instagram @menntaskolinn_hamrahlid