Prófkvíði

Enginn kemst hjá því að finna fyrir kvíða á lífsleiðinni en líta má á kvíða sem eðlilegt viðbragð við streitu sem býr einstaklinginn undir að takast á við hættur í umhverfi sínu. Kvíði hefur bein áhrif á hegðun og hvernig við stöndum okkur í hinum ýmsu verkefnum. Kvíði innan ákveðinna marka getur stuðlað að betri frammistöðu. Of mikill kvíði skaðar hins vegar starfshæfni okkar. En kvíði kemur ekki aðeins fram í hegðun okkar og frammistöðu heldur einnig í líkamlegum einkennum og hugsunum. Þannig getur kvíði valdið svefnleysi og eirðarleysi, við getum fengið hnút í magann, stífa vöðva, við verðum áhyggjufull og erfiðar hugsanir, sem oft eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum leita á hugann.

Flest allir finna fyrir einhverjum kvíða þegar þeir fara í próf einkum ef þeir hafa lítið stundað námið og eru því illa undirbúnir. Í slíku tilviki gætum við talað um "eðlilegan" kvíða. En stundum er ekki um slíkan "eðlilegan" kvíða að ræða og prófkvíði nær að hamla getu nemanda í prófi eða við undirbúning prófsins. Sumir nemendur eru verst haldnir kvíða í sjálfum prófundirbúningnum og eiga þá mjög erfitt með að einbeita sér að náminu en öðrum líður verst í sjálfu prófinu og finnst þeir gjarnan "lokast" eða "frjósa" og ekkert geta.

Kvíði getur einnig komið þannig fram að við frestum að gera það sem veldur okkur kvíða, hættum t.d. við að fara í próf. En eftir því sem við frestum oftar að gera það sem okkur finnst erfitt þeim mun erfiðara verður að takast á við vandann og hann vex okkur æ meira í augum og við fyllumst vanmetakennd.

Það eru til aðferðir til að takast á við kvíða. En til þess að geta það þurfum við m.a. að læra að horfast í augu við kvíðann með skipulögðum æfingum án þess að flýja af hólmi við kvíðvænlegar aðstæður, við þurfum sem sagt að breyta hegðun okkar. Við þurfum einnig að læra að stjórna neikvæðum hugsunum í okkar eigin garð, hætta að hamra stöðugt á því við okkur sjálf hvað við séum ómöguleg o.s.frv. Við getum einnig nýtt okkur slökun og öndunaræfingar til þess að ná tökum á líkamlegum einkennum kvíða.

Náms- og starfsráðgjafar aðstoða nemendur við að takast á við kvíða. Þeir meta prófkvíða nemenda í greiningarviðtölum auk þess að styðjast við prófkvíðaskala Spielberger (Viðhorf til prófa eftir Charles D. Spielberger í samvinnu við H.P. Gonzales, C.J.Taylor, G.R.Ross & W.D.Anton). Prófkvíðanámskeið eru haldin fyrir nemendur sem þess óska. Nánari upplýsingar fást hjá náms- og starfsráðgjöfum.

Síðast uppfært: 09. september 2010