Áfangar

Áfangi kallast skilgreint námsefni í tiltekinni grein í eina önn. Við lok annar eru þreytt próf í námsefninu eða einkunn byggð á símati yfir önnina og hlýtur þá nemandi, sem staðist hefur áfangann með tilskildum árangri, ákveðinn einingafjölda fyrir.

Um leið og búið er að skipta námsefni hverrar greinar í áfanga eins og hér hefur verið lýst er óþarfi að ætlast til að nemendur sem hefja nám samtímis í skólanum leggi stund á sama námsefni líkt og gera verður í bekkjakerfi. Þarna er komið að hluta að því valfrelsi sem talið er einn helsti kostur áfangakerfisins.

Nemendur geta að nokkru leyti ráðið því hvaða greinar þeir leggja stund á hverja önn, hagað námshraða sínum að eigin vali innan vissra marka — og unnt á að vera að bjóða upp á fjölbreytilegra námsefni og fleiri greinar en í bekkjakerfi.

En valfrelsið hefur líka í för með sér mikilvægt frávik frá bekkjakerfi: Í stað þess að nemendum sé skipað í ákveðinn námshóp (bekk) að hausti og nemendur bekkjarins fylgist að til vors í öllum námsgreinum geta nemendur áfangakerfis verið með nýjum félögum í hverjum nýjum áfanga þar sem stundatafla hvers og eins ræðst af því hvaða áfanga hann/hún hefur valið.

Áfangakerfið í MH býður upp á sveigjanlegan námstíma eftir dugnaði og áhuga nemandans. Mörgum nemendum hentar ef til vill fjögurra ára námstími en reynslan sýnir að allstór hópur ræður við að ljúka stúdentsprófinu á þremur og hálfu ári og mestu dugnaðarforkarnir jafnvel á þremur árum. Til þess að auðvelda síðastnefnda eru sérstakar hraðferðir í byrjunaráföngum í ensku, íslensku og stærðfræði ætlaðar þeim sem eru með 9 eða hærra í grunnskólaeinkunn í þessum greinum. Þessar hraðferðir auðvelda  nemandanum að ljúka stúdentsprófinu á styttri tíma en ella.

Frá hausti 2016 eru nýnemar innritaðir á brautir þar sem lágmarksfjöldi eininga er 215. 

Síðast uppfært: 04. september 2018