Menntaskólinn viđ Hamrahlíđ

Breyttar námsbrautir til stúdentsprófs fyrir nemendur úr grunnskóla sem innritast frá og međ hausti 2012.   Opin braut, félagsfrćđabraut, málabraut og

Námsbrautir skv. nýrri námskrá

Breyttar námsbrautir til stúdentsprófs fyrir nemendur úr grunnskóla sem innritast frá og með hausti 2012.

 

Opin braut, félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut

Í skólanum er boðið upp á breiða almenna menntun á fjórum bóknámsbrautum: Félagsfræðabraut, málabraut, náttúrufræðibraut og opinni braut. Til að öðlast stúdentspróf frá þessum fjórum brautum þarf nemandi að ljúka 140 námseiningum, þar af 8 einingum í líkamsrækt. Námið á hverri braut skiptist í: Grunn/kjarna (80 einingar) og sérgreinar og val (60 einingar). Samtals 140 einingar.

Haustið 2012 verður innritað í fyrsta skipti á opna braut,  félagsfræða-, mála- og náttúrufræðibrautir samkvæmt nýrri námskrá. Við skipulagningu brautanna hefur verið leitast við að styrkja einkenni hverrar brautar með kröfum um dýpt á afmörkuðum sviðum, samanber þrepamarkmið[1] nýrrar námskrár, en um leið að auka val og ábyrgð nemenda. Sveigjanleiki m.t.t. áhuga nemandans hefur verið aukinn og dýpt á afmörkuðum sviðum er betur tryggð en áður.

Brautirnar hafa allar breiða undirstöðu, þ.e. allir leggja stund á móðurmál, stærðfræði, þrjú erlend tungumál, sögu, raungreinar, samfélagsfræðigreinar, líkamsrækt og lífsleikni.

Á stúdentsprófsbrautum skulu vera að lágmarki 33% áfanga á öðru þrepi eða hærra og 17% á þriðja þrepi samkvæmt aðalnámskrá.

Opin braut, ný námskrá       

  • Brautin býr nemendur undir mismunandi nám á háskólastigi allt eftir samsetningu nemandans sem velur þrjár til fjórar kjörgreinar og lýkur samtals 45 einingum í þeim. Þetta nám er viðbót við grunninn. Fyrsta kjörgrein þarf að vera a.m.k. 15 einingar umfram kjarnaeiningar, önnur og þriðja kjörgrein a.m.k. 9 einingar umfram kjarna. Auk þess velur nemandi annað hvort fjórðu kjörgrein með a.m.k. 9 einingum umfram kjarnaeiningar eða bætir við sig einingum í fyrstu til þriðju kjörgrein. Úr þessum greinum myndar nemandinn sína eigin fléttu. Við val á kjörgreinum þarf að hafa í huga skilyrði um lágmarksfjölda eininga á öðru og þriðja hæfniþrepi.

 

Félagsfræðabraut,  ný námskrá       

  • Á þessari braut er samfélagsgreinum skipað í öndvegi. Brautin býr nemendur undir framhaldsnám í háskóla, einkum á sviði félagsvísinda. Brautin er heppilegur undirbúningur undir margs konar nám í háskóla að undanskildum raunvísindum og verkfræði.

     

Málabraut,  ný námskrá

Brautin veitir m.a. staðgóða þekkingu á ensku og tveimur öðrum nútímamálum samkvæmt vali skólans og nemandans. Brautin er um leið heppilegur undirbúningur hvers konar málanáms á háskólastigi. Einnig hentar þetta nám sem undirbúningur háskólanáms þar sem sérstaklega reynir á kunnáttu í ensku eða öðrum nútímamálum svo sem náms í ýmsum greinum félagsvísinda, heimspeki, bókmenntafræði og málfræði. Námið hentar ekki sem undirbúningur undir nám í raunvísindum eða verkfræði.

 

Náttúrufræðibraut,  ný námskrá

Brautin býr nemendur undir framhaldsnám í háskóla í raunvísindum (s.s. líffræði, efnafræði og eðlisfræði), stærðfræði og verkfræði. Brautin veitir m.a. undirstöðuþekkingu í náttúruvísindum og er góður undirbúningur undir nám í heilbrigðisgreinum og landbúnaðarfræðum.

 


IB-nám

MH er aðildarskóli að IBO (International Baccalaureate Organisation), alþjóðasamtökum 1000 skóla í yfir 100 löndum. Skólinn býður upp á IB-nám, krefjandi bóklegt nám sem lýkur með samræmdu prófi. Það veitir svipuð réttindi til framhaldsnáms og íslenska stúdentsprófið þótt það sé í ýmsu frábrugðið. Námið tekur tvö ár að loknu undirbúningsári í framhaldsskóla og kennt er og prófað að mestu á ensku. Námið er skipulagt í áföngum og öðrum nemendum MH býðst að sækja staka IB-áfanga og fá þá metna inn í hefðbundið stúdentspróf.

Listdansbraut til stúdentsprófs
Með námi á listdansbraut er lagður góður grunnur að framhaldsnámi í listdansi. Enn fremur getur brautin nýst sem undirbúningur fyrir fjölmargt annað nám á háskólastigi. Danshluti námsins fer fram utan við MH skv. þjónustusamningi við sérskóla. Að jafnaði stundar nemandi því bæði bóklegt og verklegt nám samtímis. Nemandi velur annaðhvort klassískan listdans eða nútímalistdans.


[1] Í aðalnámskrá er öllu námi í framhaldsskóla skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með þrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar.

 

headerheaderheaderheader

Skólaskjár

Góðan dag!


moya - Útgáfa 1.14 2010 - Stefna ehf